24.3.2011 | 14:48
Fréttabréf 24.mars 2011
Kæri Gestur,
Þá fer mars að ljúka í Tjarnarbíó. Apríl verður startað með stæl og byrjum við á því að frumsýna tvö íslensk dansverk frá danshópnum Darí Darí Dance Company og dönsurunum Steinunni og Brian.
Darí Darí frumsýnir verkið Gibbla og er það fjórða verkið í röðinni hjá danshópnum. Verkið er afrakstur samstarfs sjö listamanna úr mismunandi greinum þar sem dans, tónlist og kvikmyndagerð fléttast saman og mynda eina samræmda heild. Innblástur verksins er sóttur í hinn goðsögulega arf, til Asks Yggdrasils og örlaganornanna þriggja, Urðar, Verðandi og Skuldar. Darí Darí dance company er dansflokkur með aðsetur á Íslandi. Flokkurinn hefur verið starfræktur síðan haustið 2007. Dansflokkurinn er skipaður þremur dönsurum, Guðrúnu Óskarsdóttur, Ingu Maren Rúnarsdóttur og Kötlu Þórarinsdóttur
Steinunn og Brian hafa unnið saman síðan árið 2007 og sýnt verkin sín víða í Evrópu og í New York. Tvíeykið er þekkt fyrir óhefbundinn stíl, kaldhæðni, húmor og dramatík; þau leika sér með dans og texta á grátbroslegan hátt sem oft kallar fram villtan hlátur og jafnvel tár. Berskjölduð tengjast þau áhorfendum sínum á persónulegan hátt og deila með þeim hluta af sjálfum sér. Í Tjarnarbíó munu þau frumflytja verkið Steinunn and Brian DO art; How to be Original.
Verkin verða sýnd á sama kvöldi, Gibbla kl. 20.00 en Steinunn and Brian DO art; How to be Original kl. 21.00. Miðasala er hafin og er miðaverð 1900 kr á stakt verk en einnig er hægt að kaupa miða sem gildir á báðar sýningarnar á 3000 kr.
Sýningar verða 1., 3., 6., 10. apríl
Sjá nánar: http://tjarnarbio.is/?id=475
Stórsöngkonan Margréti Eir reið á vaðið með Söngleikja-Stund þann 18.mars og voru viðtökurnar hreint út sagt stórkostlegar. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn laugardaginn 2.april kl.20.00 og ættu einlægir aðdáendur söngvamynda og söngleikja ekki að láta þessa kvöldstund fram hjá sér fara.
Margrét Eir hefur löngum verið viðloðin söngleikjaskemmtanir á íslandi, eða frá því hún birtist í Hárinu í Íslensku Óperunni 1994. Síðan þá hefur hún varið tíma í Bandaríkjunum og kynnt sér formið til hlítar. Á söngleikjastundinni í Tjarnarbíó mun hún flytja lög úr ýmsum söngleikjum, bæði gömlum og nýjum, og deila með áhorfendum upplifun sinni á tónlistinni. Sérstakur gestur verður söngvarinn og leikarinn Þór Breiðfjörð, sem er nýfluttur heim eftir farsælan söngleikjaferil á West End og í Evrópu. Þór og Margrét Eir sungu einmitt saman í söngleiknum Hárinu forðum.
Miðasala: http://tjarnarbio.is/?id=468
Á Youtube-rás Tjarnarbíó má sjá 3 upptökur af kvöldinu 18.mars: http://www.youtube.com/tjarnarbio
Tjarnarbíó mun halda áfram að standa fyrir margvíslegum tónlistarskemmtunum í framtíðinni þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagská í sal Tjarnarbíó undir nafninu Stundin. Væntanleg er Kántrý-Stund með Selmu Björns og Janis Joplin-Stund með Bryndísi Ásmunds.
Auk ofangreindra viðburða mun Jónas Sigurðsson halda þriðju tónleikana sína í Tjarnarbíó þann 8.apríl og í þetta skipti verður hljómsveitin Valdimar með í för. Daníel Ágúst mun vera með útgáfutónleika 13.apríl og ekki má gleyma Þjóðfundinum í næstu viku, þriðjudaginn 29.mars, sem ber yfirskriftina Hvað er að gerast í lýðveldinu okkar? - upplýstari þjóð tekur betri ákvörðun. Fundurinn hefst kl.20.00 og er aðgangur ókeypis.
Kær kveðja
Starfsfólk Tjarnarbíó
10.3.2011 | 13:38
Tvær leiksýningar kveðja í Tjarnarbíó
Nú er tveimur sýningum að ljúka í Tjarnarbíó. Súldarsker eftir Sölku Guðmundsdóttur verður sýnt 11. og 12. mars og Svikarinn í uppsetningu Lab Loka verður með síðustu sýningar 13. og 17 mars.
Súldarsker var frumsýnt um miðjan janúar og hefur gengið fyrir fullu húsi síðan þá og hefur þurft að bæta við 8 aukasýningum til að anna eftirspurn.
Verkið segir frá tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, árásargjarnir mávar, krullumót í félagsheimilinu og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu.
Leikstjóri er Harpa Arnardóttir og leikarar Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir
Svikarinn með Árna Pétri Guðjónssyni í uppsetningu Rúnars Guðbrandssonar hefur hlotið einróma lof áhorfenda. Þeir hafa í sameiningu unnið leikgerðina sem sækir innblástur m.a. til franska rithöfundarins Jean Genet og byggir einkum á leikverki hans Vinnukonunum (Les Bonnes).
Svikarinn er í senn harmrænt verk og spaugilegt, fullt af reiði og grimmd, freníum, fóbíum og frústrasjónum, - góðlátlegu gríni og ekki sérlega góðlátlegu. Óvægin árás og miskunnarlaus einlægni. Þetta er glíma leikarans við hlutverkið, - og glíma þeirra beggja við sjálfan sig.
Í óreiðunni allri er leikarinn sjálfur þungamiðja og útgangspunktur; sá sem leikur og sá sem leikið er á, sá sem kúgar og er kúgaður, sá sem svíkur og er svikinn.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar og miða á www.tjarnarbio.is og í miðasölu Tjarnarbíós sem er opin alla virka daga milli 13 og 15
3.3.2011 | 13:23
Söngleikja-stund með Margréti Eir
Tjarnarbíó og Majónes - leikhúsbar ætla að standa fyrir margvíslegum tónlistarskemmtunum í framtíðinni þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagská og mat í sal Tjarnarbíó undir nafninu Stundin. Stórsöngkonan Margréti Eir ríður á vaðið með Söngleikja-Stund föstudaginn 18 mars.
Margrét Eir hefur löngum verið viðloðin söngleikjaskemmtanir á íslandi, eða frá því hún birtist í Hárinu í Íslensku Óperunni 1994. Síðan þá hefur hún varið tíma í Bandaríkjunum og kynnt sér formið til hlítar. Á söngleikjastundinni í Tjarnarbíó mun hún flytja lög úr ýmsum söngleikjum, bæði gömlum og nýjum, og deila með áhorfendum upplifun sinni á tónlistinni. Einlægir aðdáendur söngvamynda og söngleikja ættu því ekki að láta þessa kvöldstund fram hjá sér fara.
Fyrir sýninguna munu þær Áslaug Snorra og Anna Bogga galdra fram óvænt, suðrænt og flúrað hlaðborð. Gestir munu sitja við borð í salnum þar sem skapað verður notarlegt andrúmsloft. Húsið opnar kl. 18.30 og miðaverð er 3900 fyrir mat og tónleika.
Gestir geta líka keypt miða eingöngu á tónleikana og kosta þeir 2900 og hefjast kl. 20:00
Hér er á ferðinni upplögð skemmtun fyrir smærri hópa, fyrirtæki og starfsmannafélög.
Miðasala fer fram á www.tjarnarbio.is og midi.is. Einnig má hafa samband við miðasölu Tjarnarbíó í síma 5272102 og á midasala@tjarnarbio.is
1.3.2011 | 13:21
David Bowie tribute 10.mars
Hugmyndin með heiðurstónleikum fyrir David Bowie verður til þegar Karl Örvarsson setur upp prógram með lögum Bowie og Elvis presley á afmælisdaginn sinn 8. janúar síðastliðinn því svo skemmtilega ...og jafnvel ótrúlega vill til að bæði Elvis og Bowie eiga afmæli þann sama dag. Uppákoman fékk gríðarlega góðar viðtökur og Karl hvattur til að taka pakkann lengra.
Tónlist David Bowie hefur í gegn um tíðina snert dýpstu strengi í hjörtum tónlistarunnenda en fáir flutt hana hér á Fróni því þar er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Hópur af einvala liði hljóðfæraleikara og söngvara hefur því riðið á hið fræga vað og æft úrval bestu laga Bowie í gegn um tíðina.
Magni sjálfur Ásgeirsson verður annar gestasöngvarinn á David Bowie tributinu og tekur m.a. lögin sem hann heillaði heimsbyggðina með á sínum tíma Heroes og Starman. Hinn gesturinn er drengur sem einnig hefur tekið þátt í poppstjörnukeppni og vann þar sigur. Hann hefur frá því stimplað sig rækilega inn sem eðal söngvari. Þetta er Eyþór Ingi Gunnlaugsson sem mun án nokkurs vafa gera lagi eins og Life on Mars frábær skil.
Hér má sjá Magna syngja Heroes.
Tónleikarnir verða í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 10 mars.
24.2.2011 | 11:54
GRÍN OG GLENS töfrandi fjölskyldusýning 27.febrúar
Fjórir af bestu fjölskylduskemmtikröftum Íslands koma saman á sýningu sem er troðfull af skemmtilegheitum, gríni og glensi. Ef þú hefur gaman af töfrum og fíflalátum, þá er þetta sýning sem þú einfaldlega verður að sjá. Lalli Töframaður, einn sá flottasti í gríni og töfrageiranum hér á landi, mun koma fram með sína stórskemmtilegu útgáfu af spennandi töfrum og gríni. Einar Mikael, sem fékk m.a.standandi lófatak á hinni árlegu töfrasýningu íslenskra töframanna fyrir skömmu, mætir með frammúrskarandi og glænýtt
atriði sem inniheldur meðal annars töfradúfu. Jóhann og Jóhanna frá Sirkus Ísland munu leika á alls oddi og sýna ótrúlegt akróbat og trúða atriði eins og þeim einum er lagið, en atriðið er hluti af götusýningu þeirra sem þau hafa ferðast með um evrópu.
Grín & Glens er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ekki missa af þessu frábæra tækifæri til að eyða eftirmiðdegi með rjóma íslenskra grínista og fjöllistarfólks.
Miðasala á tjarnarbio.is og midi.is
22.2.2011 | 18:00
Leikhúsþing og leikhúsveisla í Tjarnarbíó 4. mars
Matur og málþing 12.00 13.30
Framsögumenn:
Matthieu Bellon Leikstjóri og listrænn stjórnandi Bred in the Bone, alþjóðlegs leikhóps með aðsetur í Englandi. Umfjöllunarefni: Hverjir eru helstu kostir þess og gallar að vinna í alþjóðlegu umhverfi?
Ragnheiður Skúladóttir Deildarforseti leiklistar- og dansdeildar LHÍ og framkvæmdarstjóri LÓKAL.
Umfjöllunarefni: Nauðsyn þess að íslenskir sviðslistamenn tengist hinu alþjóðlega umhverfi listanna.
Víkingur Kristjánsson Einn af stofnendum Vesturports, leikari, leikskáld og leikstjóri.
Umfjöllunarefni: Reynsla og áhrif alþjóðlegs leikhúsumhverfis á íslenskan leikhóp.
Að lokinni framsögu verður opið fyrir spurningar og almennar umræður
Umræðan fer fram á málþingi en þar verður rætt um alþjóðlegt leikhús og tengsl þess við íslenska leiklist. Um kvöldið verður boðið til leikhúsveislu þar sem sýnd verða verk eftir einstaklinga sem hafa lært eða/og unnið erlendis.
Leikhúsveisla
19.30 22.00Just Here! dansskotið leikhúsverk eftir Snædísi Lilju Ingadóttur,
Leikarar: Hjörtur Jóhann Jónsson, Sandra Gísladóttir og Snædís Lilja Ingadóttir
Hetja Gamanleikur eftir Kára Viðarsson og Víking Kristjánsson
Leikari: Kári Viðarsson
Verkið hefur hlotið glimrandi dóma og verið sýnt í Landnámssetrinu Borgarnesi.
Smjörbrauðsjómfrúrnar Gamanspunnið Smjörbrauðsgerðarnámskeið eftir Árna Grétar Jóhannsson, Guðbjörgu Ásu Jóns-Huldudóttur og Tinnu Þorvalds Önnudóttur
Leikarar: Guðbjörg Ása Jóns-Huldudóttir og Tinna Þorvalds Önnudóttir.
Veislustjórar eru nemendur frá European Theatre Arts við Rose Bruford College.
Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson
Framkvæmdastjóri: Stefanía Sigurðardóttir
15.2.2011 | 09:38
Úthlutun leiklistarráðs 2011
9.2.2011 | 14:41
Barnaleikritið Út í kött! í Tjarnarbíó 13.feb
Út í kött! fjallar um Erp sem neyðist til að taka á móti dóttur vinafólks foreldra sinna inn í herbergið sitt. Helga Soffía er hress og hraðlýgin og kann frá mörgu undarlegu að segja. Erpur á erfitt með að sætta sig við þennan gest sinn, enda snýr hún heimi hans, þar sem hetjur teiknimynda og tölvuleikja eru karlmenn, á hvolf. Með fjörugu ímyndunarafli sínu nær hún að sýna honum að tilveran þarf ekki að vera niðurnjörvuð í fyrirfram ákveðin hólf og kassa. Sögur Helgu Soffíu eru þrjú Grimms-ævintýri byggð á útgáfum Roalds Dahl og fléttast þau inn í leikverkið með tónlist, dansi og söng. Þar
birtast Rauðhetta, Öskubuska, prins, úlfar og grísir en Rauðhetta er enginn ráðvilltur sakleysingi sem lætur éta sig mótþróalaust og Öskubuska áttar sig á að hamingjan felst ekki í því einu að vera fótnett og fríð. Meira um leikritið á http://this.is/great/utikott.html eða á www.tjarnarbio.is
<http://www.tjarnarbio.is/>
Börnin tvö leika þau Fannar Guðni Guðmundsson og Sóley Anna Benónýsdóttir en aðrir flytjendur eru Heiða Árnadóttir, Finnbogi Þorkell Jónsson og Kolbrún Anna Björnsdóttir og bregða þau sér í hin ýmsu hlutverk ævintýra og ytri geims. Búninga gerði Sigríður Ásta Árnadóttir, leikmynd Kristrún
Eyjólfsdóttir, tónlistin er eftir Benóný Ægisson og Kolbrún Anna Björnsdóttir er leikstjóri.
Því miður var ein af afleiðingum kreppunnar sú að aðgengi barna að leikhúsi takmarkaðist verulega því heimsóknir leikhópa í skóla og leikskóla lentu undir niðurskurðarhnífnum. Lýðveldisleikhúsið vill bæta þetta ástand og býður skólum, leikskólum, foreldrasamtökum og öðrum hópafslátt að sýningunni í Tjarnarbíó eða miðann á 1200 kr fyrir 10 manna hópa eða fleiri en almennt
miðaverð er 1800 kr. Þeir sem vilja notfæra sér þetta tilboð hafi samband við miðasölu Tjarnarbíós í síma 527 2100 á milli kl. 13 og 15 alla virka daga eða sendi vefpóst á midasala@tjarnarbio.is.Lýðveldisleikhúsið getur einnig komið með sýninguna í skóla og leikskóla og kostar sýningin þá 75.000kr fyrir allt að 100 áhorfendur. Frekari upplýsingar gefur Benóný Ægisson í
síma 897 8694 eða í netfanginu benaegis@simnet.is
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2011 | 13:31
Svikarin frumsýndur í Tjarnarbíó
Lab Loki frumsýnir Svikarann í Tjarnarbíó laugardaginn 19. febrúar.
Verkið er einleikur, fluttur af Árna Pétri Guðjónssyni, en Rúnar Guðbrandsson leikstýrir.
Þeir hafa í sameiningu unnið leikgerðina sem sækir innblástur m.a. til franska rithöfundarins Jean Genet og byggir einkum á leikverki hans Vinnukonunum (Les Bonnes).
Filippía Elísdóttir sér um útlit sýningarinnar og Garðar Borgþórsson hannar lýsingu og hljóðmynd.
Sýningar verða laugardaginn 19. febrúar, frumsýning.
föstudaginn. 25. febrúar.
laugardaginn 26. febrúar.
miðvikudag. 2. mars.
laugardaginn. 5. mars, - síðasta sýning
Svikarinn er í senn harmrænt verk og spaugilegt, fullt af reiði og grimmd, freníum, fóbíum og frústrasjónum, - góðlátlegu gríni og ekki sérlega góðlátlegu.
Óvægin árás og miskunnarlaus einlægni.
Þetta er glíma leikarans við hlutverkið, - og glíma þeirra beggja við sjálfan sig.
Engillinn glímir við djöfulinn, dýrlingurinn við glæpamanninn.
Þetta er pólýfónískur kór hins margklofna persónuleika.
Kakófónía örvæntingarinnar og kyrrlátt eintal einsetumannsins.
Draumur fangans. Kynórar ónanistans. Játningar iðrandi syndara.
Rödd hrópandans í eyðimörkinni. Hinsta andvarp píslavottarins.
Þetta er þjófurinn í skriftastólnum og skemmtikrafturinn í skerandi sviðsljósinu.
Skrípamynd og altaristafla.
Neonlýsing almenningssalernisins og ofbirta hreinsunareldsins.
Í óreiðunni allri er leikarinn sjálfur þungamiðja og útgangspunktur; sá sem leikur og sá sem leikið er á, sá sem kúgar og er kúgaður, sá sem svíkur og er svikinn.
Genet voru svikin ofarlega í huga og sem leikritahöfundur vildi hann svíkja leikarann, - nú er stund hefndarinnar runnin upp og leikarinn fær tækifæri til að svíkja Genet, - hlutverkið að svíkja höfund sinn, - tilgangurinn helgar meðalið og til þess að ná markmiðum sínum stelur leikarinn því sem honum sýnist frá þjófnum Jean Genet
Hér má sjá myndir frá æfingu á Svikaranum
Einnig má sjá efni á facebook síðu Lab Loka
3.1.2011 | 12:45
Íslensk leikverk í janúar 2011
Tjarnarbíó mun byrja nýja árið með krafti en þrjú íslensk leikrit verða sýnd í Tjarnrarbíó í janúar. Síðustu sýningar á leikverki Jóns Atla Jónassonar, MOJITO verða dagana 7, 15, 22, 29. jan kl.20. Þann 14.janúar verður SÚLDARSKER eftir Sölku Guðmundsdóttur frumsýnt en það er í leikstjórn Hörpu Arnardóttur en með leik fara Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir.
Um verkið:
"Tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum; önnur gruflar í fortíðinni en hin staldrar aldrei við til að líta um öxl. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, gráðugir ufsar, óupplýst morð, uppstoppaðar kríur og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar fullbúnu en ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu."
Dagana 27-28.jan verður ljóðaleikurinn eða söngdansinn SÍÐASTI DAGUR SVEINS SKOTTA eftir Benóný Ægisson sýndur í Tjarnarbíó
Um verkið:
"Síðasti dagur Sveins skotta er ljóðleikur eða söngdans þar sem jafngild eru leiklist, tónlist og dans. Það er svört kómedía sem gerist á 17. öld og fjallar um Svein Björnsson þjóf, nauðgara og galdramann sem var hengdur í Rauðuskörðum á Barðaströnd 1648. Sveinn þessi var enn í móðurkviði þegar faðir hans Axlar-Björn var tekinn af lífi fyrir morðverk sín. Uppsetningin er í samstarfi við Kómedíuleikhúsið á Ísafirði og var verkið frumsýnt 18. mars 2010 í Edinborgarhúsinu.
Síðasti dagur Sveins skotta gerist á síðasta ævidegi Sveins þar sem hann bíður aftöku sinnar og rifjar upp líf sitt og ástæður þess að svona er komið fyrir honum. Konur hafa verið hans örlagavaldar, fyrst móðir hans sem gerði honum í móðurkviði að hefna föður síns, síðan fórnarlömb hans og að lokum konan sem leikur á hann og hefur hann undir."
Auk þess verða sunnudagar áfram fjölskyldudagar í Tjarnarbíó og mun m.a Sirkus Íslands vera með sýninguna SIRKUS SÓLEY 16.jan.
Miðasala er hafin á tjarnarbio.is og midi.is