Fréttabréf 24.mars 2011

Kæri Gestur,

Þá fer mars að ljúka í Tjarnarbíó. Apríl verður startað með stæl og byrjum við á því að frumsýna tvö íslensk dansverk frá danshópnum Darí Darí Dance Company og dönsurunum Steinunni og Brian.

Darí Darí frumsýnir verkið „Gibbla“ og er það fjórða verkið í röðinni hjá danshópnum. Verkið er afrakstur samstarfs sjö listamanna úr mismunandi greinum þar sem dans, tónlist og kvikmyndagerð fléttast saman og mynda eina samræmda heild. Innblástur verksins er sóttur í hinn goðsögulega arf, til Asks Yggdrasils og örlaganornanna þriggja, Urðar, Verðandi og Skuldar. Darí Darí dance company er dansflokkur með aðsetur á Íslandi. Flokkurinn hefur verið starfræktur síðan haustið 2007. Dansflokkurinn er skipaður þremur dönsurum, Guðrúnu Óskarsdóttur, Ingu Maren Rúnarsdóttur  og Kötlu Þórarinsdóttur

Steinunn og Brian hafa unnið saman síðan árið 2007 og sýnt verkin sín víða í Evrópu og í New York.  Tvíeykið er þekkt fyrir óhefbundinn stíl, kaldhæðni, húmor og dramatík; þau leika sér með dans og texta á grátbroslegan hátt sem oft kallar fram villtan hlátur og jafnvel tár.  Berskjölduð tengjast þau áhorfendum sínum á persónulegan hátt og deila með þeim hluta af sjálfum sér. Í Tjarnarbíó munu þau frumflytja verkið „Steinunn and Brian DO art; How to be Original“.

Verkin verða sýnd á sama kvöldi, „Gibbla“ kl. 20.00 en „Steinunn and Brian DO art; How to be Original“ kl. 21.00. Miðasala er hafin og er miðaverð 1900 kr á stakt verk en einnig er hægt að kaupa miða sem gildir á báðar sýningarnar á 3000 kr.

Sýningar verða 1., 3., 6., 10. apríl

Sjá nánar: http://tjarnarbio.is/?id=475

 

Stórsöngkonan Margréti Eir reið á vaðið með Söngleikja-Stund þann 18.mars og voru viðtökurnar hreint út sagt stórkostlegar. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn laugardaginn 2.april kl.20.00 og ættu einlægir aðdáendur söngvamynda og söngleikja ekki að láta þessa kvöldstund fram hjá sér fara.

Margrét Eir hefur löngum verið viðloðin söngleikjaskemmtanir á íslandi, eða frá því hún birtist í Hárinu í Íslensku Óperunni 1994. Síðan þá hefur hún varið tíma í Bandaríkjunum og kynnt sér formið til hlítar. Á söngleikjastundinni í Tjarnarbíó mun hún flytja lög úr ýmsum söngleikjum, bæði gömlum og nýjum, og deila með áhorfendum upplifun sinni á tónlistinni. Sérstakur gestur verður söngvarinn og leikarinn Þór Breiðfjörð, sem er nýfluttur heim eftir farsælan söngleikjaferil á West End og í Evrópu. Þór og Margrét Eir sungu einmitt saman í söngleiknum Hárinu forðum.

Miðasala: http://tjarnarbio.is/?id=468

Á Youtube-rás Tjarnarbíó má sjá 3 upptökur af kvöldinu 18.mars: http://www.youtube.com/tjarnarbio

 

Tjarnarbíó mun halda áfram að standa fyrir margvíslegum tónlistarskemmtunum í  framtíðinni þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagská í sal Tjarnarbíó undir nafninu Stundin. Væntanleg er Kántrý-Stund með Selmu Björns og Janis Joplin-Stund með Bryndísi Ásmunds.

Auk ofangreindra viðburða mun Jónas Sigurðsson halda þriðju tónleikana sína  í Tjarnarbíó þann 8.apríl og í þetta skipti verður hljómsveitin Valdimar með í för. Daníel Ágúst mun vera með útgáfutónleika 13.apríl og ekki má gleyma Þjóðfundinum í næstu viku, þriðjudaginn 29.mars, sem ber yfirskriftina „Hvað er að gerast í  lýðveldinu okkar? - upplýstari þjóð tekur betri ákvörðun“. Fundurinn hefst kl.20.00 og er aðgangur ókeypis.

 

Kær kveðja

Starfsfólk Tjarnarbíó

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband