Færsluflokkur: Menning og listir
9.12.2007 | 21:41
Á nýju ári
Tjarnarbíó verður áfram rekið af SL á næsta ári eða þangað til að framkvæmdir hefjast í húsnæðinu. Áætlað er að þær hefjist í apríl/maí 2008. Þessa dagana er verið að ganga frá bókunum í húsnæðið en þar mun að vanda verða boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Má þar nefna að kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn hefur aftur starfsemi sína, alþjóðlega leiklistarhátíðin Lókal verður með sýningar í Tjarnarbíó. Einnig verða að minnsta kosti 2-3 sýningar á vegum menntaskólana. Að lokum verður boðið upp á fjölbreytta tónleika ásamt nemendasýninga og einstakra viðburða. Um að gera að fylgjast með en hægt er að sjá dagskrá Tjarnarbíós á www.mbl.is/leikhus
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2007 | 23:11
Benny Crespo´s Gang - Útgáfutónleikar
Útgáfutónleikar Benny Crespo´s Gang verða í Tjarnarbíói miðvikudagskveldið 19. desember. Húsið opnar kl. 20:47 og er forsala í verslunum Skífunnar, BT og á midi.is
Benny Crespo´s Gang er hiklaust ein áhugaverðasta hljómsveit landsins um þessar mundir og fyrstu plötu hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í rokkheimum og dómar og viðtökur hafa ekki látið á sér standa. ,,Gítarkennd, hljóðgerfluð, popp, metal kássa" eru orð sem kunna að koma upp í hugann. Og kannski ekki. Þú verður bara að kanna hvort Benny Crespo´s Gang, sem er rómað tónleikaband, nær að skila ótrúlegri orkunni inn á plötu. Magnús, Lovísa, Helgi og Bassi eru þó sammála um það hafi tekist, þótt þau séu ekki sammála um neitt annað.
Linkur: http://www.myspace.com/bennycresposgang
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2007 | 19:59
Tvær sýningar eftir á Heddu Gabler.
Nú eru aðeins tvær sýningar eftir á Heddu Gabler eftir Henrik Ibsen, sem Fjalakötturinn sýnir í Tjarnarbíói.
Laugardaginn 1.des kl. 20:00
Laugardaginn 8.des kl. 20:00
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson
Leikarar: Eline McKay, Jón Ingi Hákonarson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Sigurður Skúlason, Valdimar Flygenring, Ragnheiður Steindórsdóttir og Soffía Jakobsdóttir.
Leikmynd og búningar: Helga Rún Pálsdóttir
Tónlist: Ragnheiður Gröndal
Lýsing: Sveinn Benediktsson
Leikgervi: Kolbrún Birna Halldórsdóttir
Miðasalan er opin alla daga frá kl. 17:00-20:00 og sími miðasölu er 551 2477.
26.11.2007 | 19:56
Framkvæmdir hefjast næsta vor
Nú hefur verið ákveðið að hefja framkvæmdir næsta vor á Tjarnarbíó. Búið er að stofna nefnd til að undirbúa framkvæmdirnar en í henni sitja fulltrúar frá menningar- og ferðamálasviði, framkvæmdasviði og fulltrúi SL.
Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki í byrjun árs 2009.
22.11.2007 | 17:48
Reykjavíkurborg samþykkir að hefja framkvæmdir
Til hamingju Reykvíkingar!
Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að hefja á næsta ári framkvæmdir á Tjarnarbíó. Sú þrotlausa vinna sem SL hefur lagt í síðastliðin ár er orðin að veruleika. Eftir að hafa rekið húsnæðið í 13 ár fyrir borgina hefur draumur SL um öfluga sviðslistamiðstöð þar sem boðið verður upp á úrvals leik- og kvikmyndasýningar orðið að veruleika.
Árið 2003 var unnin stefnumótunar skjal á vegum SL og var eitt af markmiðum félagsins að koma á fót fræðslu- og menningarsetri. Í kjölfarið var stofnuð húsnæðisnefnd á vegum SL en í henni sátu Felix Bergsson, Vilhjálmur Hjálmarsson ásamt framkvæmdastjóra Kristínu Eysteinsdóttur/Gunnar Gunnsteinsson. Þessi nefnd fór ofan í kjölinn á þeim möguleikum sem voru í boði og lagði fram tillögu um breytingar á Tjarnarbíó er myndu nýtast starfsemi atvinnuleikhópa betur. Einnig var ákveðið að samnýta húsæðið með kvikmyndasýningum og hefur verið tekið tillit til þess þáttar við hönnunina.
Það er von SL að í ársbyrjun 2009 muni hið fornfræga hús, Tjarnarbíó opna með bavúr!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2007 | 09:48
Tjarnarbíó á framkvæmdaáætlun
Eftir margra ára þrotlausa baráttu SL er Tjarnarbíó loksins komið inn á framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar. Þetta sögufræga hús mun öðlast fyrri reisn ef ráðist verður í framkvæmdir í lok næsta árs. Á áætlun er gert ráð fyrir 50 milljónum á næsta ári en til að klára framkvæmdirnar verður að bæta við að lágmarki 100 milljónum.
Ferli og brunamál eru í miklum ólestri í húsinu enda eru t.d. allir veggir síðan 1940 og úr pappa. Einnig er slæmt aðgengi fyrir hjólastóla og anddyrið tekur ekki nema um 50-80 manns en salurinn rúmar um 220 áhorfendur. Því hafa margir gestir þurft að híma úti í kuldanum sem er ekki boðlegt.
Það eru margir fingur krossaðir þessa dagana hjá aðildarfélögum SL sem telja 58 í dag. Þegar búið verður að klára þær framkvæmdir sem SL hefur lagt til verður Tjarnarbíó öflug sviðslista- og kvikmyndamiðstöð í hjarta borgarinnar. Hægt er að nálgast teikningar að hugmyndum SL á heimasíðu bandalagsins www.leikhopar.is undir Tjarnarbíó.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 23:47
Tilnefndar stuttmyndir voru frumsýndar í Tjarnarbíói
Edduverðlaunin voru veitt í síðustu viku. Ánægjulegt var að sjá að allar stuttmyndirnar þrjár sem voru tilnefndar höfðu verið frumsýndar í Tjarnarbíói. Eru þetta stuttmyndirnar Bræðrabylta í leikstjórn Gríms Hákonarson, Anna í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur og Skröltormar í leikstjórn Hafsteins G. Sigurðssonar.
Með tilkomu sýningarvélar og tjalds Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Tjarnarbíói hafa kvikmyndasýningar aukist til muna í leikhúsinu, bæði á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og Fjalakattarins sem og annarra óháðra aðila. Er þetta SL mikið gleðiefni þar sem stefna SL í rekstri hússins er að koma á fót sviðslista- og kvikmyndamiðstöð í hjarta miðborgarinnar.
SL hefur rekið Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg undanfarinn áratug. Fyrir tveimur árum lét SL gera viðamikla úttekt á húsinu, með styrk frá Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneyti, með það að leiðarljósi að gera leikhúsið nýtilegt fyrir sjálfstæða atvinnuleikhópa. Niðurstaða skýrslunnar var að ef bjarga á húsinu frá niðurníslu þarf að ráðast í endurbætur á því. Endurreist Tjarnarbíó yrði einnig þakklát viðbót við menningarlíf höfuðborgarinnar.
Hugmyndin er að koma á samfelldri starfsemi allt árið um kring með áherslu á nýsköpun í sviðslistum og að búa til vettvang fyrir framsæknar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Eins er gert ráð fyrir að kvikmyndasýningar verði fastur liður í starfseminni. Reykvíkingar myndu eignast leik- og kvikmyndahús í hjarta borgarinnar sem yrði sívirk kvika í menningarlífinu.
Að auki myndi endurreist Tjarnarbíó verða einskonar miðstöð fyrir starfsemi allra sjálfstæðra atvinnuhúsa og leikhópa. Aðildafélög SL eru 57 talsins og árlega frumsýna þau milli 20 og 30 sviðsverk og fá til sín í kringum 200.000 áhorfendur, en þess má geta að það eru fleiri en sjá sýningar LR, LA og Þjóðleikhússins samanlagt. SL hefur áform um að koma upp fræðslu- og menningarsetri atvinnuleikhópanna þar sem hægt verður að sækja upplýsingar um rekstur leikhúsa, uppsetningar og fleira sem snýr að rekstri leikhópa. Með miðstöð í Tjarnarbíói á einnig að vera hægt að samhæfa markaðssetningu leikhópanna og koma loks upp sameiginlegri miðasölu.
Nú þegar er kominn vísir að því sem koma skal með þeim gæða stuttmyndum og kvikmyndum í fullri lengd sem sýndar hafa verið undanfarið ár í Tjarnarbíói. Eins standa um þessar mundir yfir æfingar sjálfstæða atvinnuleikhópsins Fjalakattarins á Heddu Gabler. Þetta sambland sviðslista- og kvikmyndasýninga gefur húsinu sérstöðu og gefur fólki kost á að leita í Tjarnarbíó ef það vill sjá óháðar spennandi sýningar.
Borgarfulltrúar í Reykjavíkurborg hafa verið jákvæðir í garð verkefnisins og sýnt því nokkurn áhuga. Er það von okkar í SL að nýr meirihluti borgarinnar ýti verkefninu úr vör og tryggi þessu fallega leikhúsi framtíð í borginni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 18:20
Hedda Gabler frumsýnd í Tjarnarbíó
Hedda Gabler í uppsetningu Fjalakattarins verður frumsýnd í Tjarnarbíó föstudaginn 17. nóvember.
Hedda Gabler kom fyrst fyrir almenningssjónir árið 1891. Verkið fjallar um yfirstéttarkonu sem hrífst af ævintýralegu líferni, hugrekki og valdi, en sér slíkt einungis í tengslum við líf karla. Hún laðar þá að sér og kann vel við félagsskap þeirra en getur ekki lifað lífi sínu jafnfætis þeim.
Með þessu verki er Ibsen gagngert að fjalla um konu sem skortir hugrekki til að ná tökum á sínu eigin lífi, og þarf því að skipta sér af lífi annarra með skelfilegum afleiðingum.
Ibsen var ekki bara á undan sínum samtíma þegar hann sló fram þessari gagnrýni á stöðu konunnar, heldur tókst honum að varpa fram svo áleitinni spurningu, um það hvernig við sem manneskjur skilgreinum frelsi okkar og fjötra, að verkið virðist ávallt standast tímans tönn.
Leikarar
Eline McKay, Jón Ingi Hákonarson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Soffía Jakobsdóttir, Valdimar Flygenring, Alexía Björg Jóhannesdóttir og Sigurður Skúlason.
Miðasala er á www.midi.is og í síma 5512477
14.11.2007 | 17:57
Framtíð Tjarnarbíós
Tjarnarbíó er staðsett í hjarta Reykjavíkur. Húsið var byggt árið 1913 og var starfrækt sem íshús til ársins 1942 þegar því var breytt í kvikmyndahús. Árið 1995 tók Bandalag sjálfstæðra leikhúsa (SL) við rekstri Tjarnarbíós af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og hefur rekið húsið síðastliðin ellefu ár fyrir Reykjavíkurborg. Húsnæðið hefur verið leigt út fyrir alls kyns starfsemi. Aðallega til atvinnuleikhópa en líka áhugaleikhópa, menntaskóla, nemendasýninga og til tónleikahalds. Eins hafa kvikmyndasýningar aukist þar síðastliðin ár.
Nú er svo komið að húsið er í töluverðri niðurníðslu svo nauðsynlegra umbóta er þörf á ýmsum þáttum, til að mynda er varða brunavarnir og ferlismál. Að öðrum kosti verður húsið lokað og tekið fyrir alla starfsemi þar.
Haustið 2003 fór SL í allsherjar stefnumótunarvinnu og eitt af málefnunum sem tekin voru fyrir var húsnæðisvandi sjálfstæðra atvinnuleikhúsa í Reykjavík. Niðurstaðan var sú að það vantar sárlega fjölnota leikhús (black box) sem myndi þjóna hinum margvíslegu uppsetningum sjálfstæðu atvinnuleikhúsanna hér í borginni.
Þar sem þörf er á verulegum umbótum á Tjarnarbíói í þeirri mynd sem það er í dag ákvað stjórn SL að láta gera úttekt á stöðu mála í húsinu, möguleikum þess og takmörkunum. Athugunin leiddi í ljós að með markvissum breytingum á húsinu getur það vel hentað velflestri starfsemi sjálfstæðra atvinnuleikhópa og undir kvikmyndasýningar.
Núna er því rétti tíminn til að fara í allsherjar umbætur í þessu sögufræga húsi í hjarta Reykjavíkur og opna tæknilega fullbúna leikhús- og kvikmyndamiðstöð sem leggur áherslu á framsæknar sýningar og nýjungar í listsköpun. Þar verður kröftum listamanna fundinn farvegur til nýsköpunar og þeim veitt frelsi til að láta stórtækar hugmyndir verða að veruleika. SL verður ennfremur í samstarfi við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) sem mun standa fyrir fjölbreyttum kvikmyndasýningum og vekja þannig gamla bíóstarfsemi í Tjarnarbíó til lífsins á ný í bland við framsæknar leik- og danssýningar.
Tjarnarbíó getur hæglega orðið sívirk kvika í listalífinu þar sem jaðarinn í sviðslistum hefur bækistöð sína með alls kyns menningartengdum uppákomum, svo sem fjölbreyttum leiksýningum, danssýningum, kvikmyndasýningum, leiklistarhátíðum, alþjóðlegri kvikmyndahátíð, námskeiðum, fyrirlestrum og móttökum. Nýja Tjarnarbíó mun leggja grunn að Sviðslistamiðstöð Íslands þar sem allir sviðslistahópar hafa sameiginlega skrifstofuaðstöðu í nágrenni Tjarnarbíós.
Eftir að SL hafði kynnt stjórnmálamönnum, borgarfulltrúum og hagsmunaaðilum hugmyndir að fyrirliggjandi breytingum á Tjarnarbíói var eftirfarandi skýrsla um breytingar á Tjarnarbíói unnin fyrir tilstuðlan SL sem hlaut styrk til úttektarinnar frá menntamálaráðuneytinu og Borgarráði Reykjavíkur. Sjá hér: http://www.leikhopar.is/Apps/WebObjects/BandSjalfsLeikhusa.woa/1/swdocument/1000061/Tjarnarb%C3%AD%C3%B3+Sk%C3%BDrsla.pdf
13.11.2007 | 20:33