11.1.2008 | 11:05
Kvikmyndaborgin Reykjavík
SL fagnar því að samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær að efla kvikmyndageirann og starf hans í Reykjavík til muna. Meðal annars með því að efla Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík sem fram til þessa hefur haft aðsetur sitt í Tjarnarbíói.
Þar með leggur borgin enn frekar grunninn að því að gera draum SL, um að gera Tjarnarbíó að leikhús- og kvikmyndamiðstöð í hjarta borgarinnar, að veruleika.
Síðastliðin fjögur ár hefur SL lagt mikla fjármuni og vinnu í að koma upp setri Sjálfstæðu leikhúsanna. Þar sem SL hefur rekið Tjarnarbíó síðastliðin 13 ár lá beinast við að finna leiðir til þess að húsnæðið gæti þjónað betur starfsemi og sviðsverkum sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Unnin var ítarleg skýrsla sem hægt er að sjá á heimasíðu SL, www.leikhopar.is, þar sem kynntar eru viðamiklar breytingar á húsnæðinu auk viðbyggingar í porti við hliðina á Tjarnarbíói. Sömuleiðis var í skýrslunni kynnt nýstárlegt rekstrarform þar sem leiksýningar verða í boði samhliða kvikmyndasýningum. Þannig mun Tjarnarbíó hafa sérstöðu í Reykjavík þar sem hægt verður að sjá óhefðbundnar sviðslistasýningar sem og kvikmyndasýningar.
Undir lok síðasta árs samþykkti borgarráð að fara að tillögum SL og hefja framkvæmdir í Tjarnarbíói samkvæmt þeirri undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið af SL undangengin fjögur ár. Er þetta mikill áfangasigur fyrir SL og lítum við bjartsýn til framtíðar á að geta stóreflt menningarlífið í miðborg Reykjavíkur.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Kvikmyndir, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.