3.1.2011 | 12:45
Íslensk leikverk í janúar 2011
Tjarnarbíó mun byrja nýja árið með krafti en þrjú íslensk leikrit verða sýnd í Tjarnrarbíó í janúar. Síðustu sýningar á leikverki Jóns Atla Jónassonar, MOJITO verða dagana 7, 15, 22, 29. jan kl.20. Þann 14.janúar verður SÚLDARSKER eftir Sölku Guðmundsdóttur frumsýnt en það er í leikstjórn Hörpu Arnardóttur en með leik fara Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir.
Um verkið:
"Tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum; önnur gruflar í fortíðinni en hin staldrar aldrei við til að líta um öxl. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, gráðugir ufsar, óupplýst morð, uppstoppaðar kríur og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar fullbúnu en ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu."
Dagana 27-28.jan verður ljóðaleikurinn eða söngdansinn SÍÐASTI DAGUR SVEINS SKOTTA eftir Benóný Ægisson sýndur í Tjarnarbíó
Um verkið:
"Síðasti dagur Sveins skotta er ljóðleikur eða söngdans þar sem jafngild eru leiklist, tónlist og dans. Það er svört kómedía sem gerist á 17. öld og fjallar um Svein Björnsson þjóf, nauðgara og galdramann sem var hengdur í Rauðuskörðum á Barðaströnd 1648. Sveinn þessi var enn í móðurkviði þegar faðir hans Axlar-Björn var tekinn af lífi fyrir morðverk sín. Uppsetningin er í samstarfi við Kómedíuleikhúsið á Ísafirði og var verkið frumsýnt 18. mars 2010 í Edinborgarhúsinu.
Síðasti dagur Sveins skotta gerist á síðasta ævidegi Sveins þar sem hann bíður aftöku sinnar og rifjar upp líf sitt og ástæður þess að svona er komið fyrir honum. Konur hafa verið hans örlagavaldar, fyrst móðir hans sem gerði honum í móðurkviði að hefna föður síns, síðan fórnarlömb hans og að lokum konan sem leikur á hann og hefur hann undir."
Auk þess verða sunnudagar áfram fjölskyldudagar í Tjarnarbíó og mun m.a Sirkus Íslands vera með sýninguna SIRKUS SÓLEY 16.jan.
Miðasala er hafin á tjarnarbio.is og midi.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.