Færsluflokkur: Lífstíll
14.11.2007 | 17:57
Framtíð Tjarnarbíós
Tjarnarbíó er staðsett í hjarta Reykjavíkur. Húsið var byggt árið 1913 og var starfrækt sem íshús til ársins 1942 þegar því var breytt í kvikmyndahús. Árið 1995 tók Bandalag sjálfstæðra leikhúsa (SL) við rekstri Tjarnarbíós af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og hefur rekið húsið síðastliðin ellefu ár fyrir Reykjavíkurborg. Húsnæðið hefur verið leigt út fyrir alls kyns starfsemi. Aðallega til atvinnuleikhópa en líka áhugaleikhópa, menntaskóla, nemendasýninga og til tónleikahalds. Eins hafa kvikmyndasýningar aukist þar síðastliðin ár.
Nú er svo komið að húsið er í töluverðri niðurníðslu svo nauðsynlegra umbóta er þörf á ýmsum þáttum, til að mynda er varða brunavarnir og ferlismál. Að öðrum kosti verður húsið lokað og tekið fyrir alla starfsemi þar.
Haustið 2003 fór SL í allsherjar stefnumótunarvinnu og eitt af málefnunum sem tekin voru fyrir var húsnæðisvandi sjálfstæðra atvinnuleikhúsa í Reykjavík. Niðurstaðan var sú að það vantar sárlega fjölnota leikhús (black box) sem myndi þjóna hinum margvíslegu uppsetningum sjálfstæðu atvinnuleikhúsanna hér í borginni.
Þar sem þörf er á verulegum umbótum á Tjarnarbíói í þeirri mynd sem það er í dag ákvað stjórn SL að láta gera úttekt á stöðu mála í húsinu, möguleikum þess og takmörkunum. Athugunin leiddi í ljós að með markvissum breytingum á húsinu getur það vel hentað velflestri starfsemi sjálfstæðra atvinnuleikhópa og undir kvikmyndasýningar.
Núna er því rétti tíminn til að fara í allsherjar umbætur í þessu sögufræga húsi í hjarta Reykjavíkur og opna tæknilega fullbúna leikhús- og kvikmyndamiðstöð sem leggur áherslu á framsæknar sýningar og nýjungar í listsköpun. Þar verður kröftum listamanna fundinn farvegur til nýsköpunar og þeim veitt frelsi til að láta stórtækar hugmyndir verða að veruleika. SL verður ennfremur í samstarfi við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) sem mun standa fyrir fjölbreyttum kvikmyndasýningum og vekja þannig gamla bíóstarfsemi í Tjarnarbíó til lífsins á ný í bland við framsæknar leik- og danssýningar.
Tjarnarbíó getur hæglega orðið sívirk kvika í listalífinu þar sem jaðarinn í sviðslistum hefur bækistöð sína með alls kyns menningartengdum uppákomum, svo sem fjölbreyttum leiksýningum, danssýningum, kvikmyndasýningum, leiklistarhátíðum, alþjóðlegri kvikmyndahátíð, námskeiðum, fyrirlestrum og móttökum. Nýja Tjarnarbíó mun leggja grunn að Sviðslistamiðstöð Íslands þar sem allir sviðslistahópar hafa sameiginlega skrifstofuaðstöðu í nágrenni Tjarnarbíós.
Eftir að SL hafði kynnt stjórnmálamönnum, borgarfulltrúum og hagsmunaaðilum hugmyndir að fyrirliggjandi breytingum á Tjarnarbíói var eftirfarandi skýrsla um breytingar á Tjarnarbíói unnin fyrir tilstuðlan SL sem hlaut styrk til úttektarinnar frá menntamálaráðuneytinu og Borgarráði Reykjavíkur. Sjá hér: http://www.leikhopar.is/Apps/WebObjects/BandSjalfsLeikhusa.woa/1/swdocument/1000061/Tjarnarb%C3%AD%C3%B3+Sk%C3%BDrsla.pdf
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)