15.10.2010 | 14:02
Um Tjarnarbíó á Pressan.is
Pressan.is 13. okt. 2010 - Gunnar Guðbjörnsson
Eitt af elstu húsum Reykjavíkur gegnir nú fjölbreyttu hlutverki
Tjarnarbíó er aftur fullt af lífi eftir rúmlega tveggja ára hlé. Starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna hefur þar aftur sinn samastað og hann ekki af verri endanum. Það var upplífgandi að koma á staðinn í öllu krepputalinu og sjá að til er fólk með framtíðarsýn og hugrekki til að takast á við listsköpun en oft hefur maður á tilfinningunni að í listunum sé vaxtabroddurinn í íslensku samfélagi hvað sterkastur. Ég spjallaði við Gunnar Gunnsteinsson til að fræðast meira um Tjarnarbíó og ástæður þess að við erum að horfa upp á endurfæðingu hússins og hvers ber að vænta frá Sjálfstæðu leikhúsunum í vetur.
"Það var eiginlega engin stefna um framtíð Tjarnarbíós hvorki að endurbæta það né rífa . Það stóð bara hérna autt og umsjón með húsinu færð regllubundið á milli sviða í borgarráði þar sem það undir lokin endaði hjá Íþrótta og tómstundaráði. Það var svo að Sjálfstæðu leikhúsin fengu það til umráða en þau fóru að vinna í nýrri stefnumótun árið 2003 og farið að svipast um eftir endanlegu húsnæði. Margir leikhópar voru þá að hverfa inn í leikhúsin og okkur fannst nauðsynlegt að skoða hugmyndir um til dæmis að byggja eitthvað. Að lokum ákváðum við að líta okkur nær og sjá hvort ekki væri hægt að nýta þetta hús sem á svo langa sögu."
SL fékk til liðs við sig arkitektinn Vilhjálm Hjálmarsson eftir að í ljós kom að til stæði að loka húsinu af öryggisástæðum vegna brunavarna. Húsið var komið í algjört lamasess. Í samvinnu voru gerðar áætlanir og teikningar og unnar upp tillögur sem svo voru lagðar fyrir borgarstjórn.
Eitt af því sem þótti hindrun var að hafa fast svið þar sem þessir leikhópar eru oft háðir frelsi og stærð sviðsýmis. Öll ástæða þótti til að nýta slíkt hús í þágu menningar almennt og miðuðu tillögurnar mjög að því að fjölnýta húsið.
"Það átti líka eftir að koma í ljós þegar byrjað var að rífa veggi að húsið var í enn verra ástandi en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta hús er byggt sem íshús rétt eftir aldamótinn 1900, eitt af elstu húsum bæjarins og þess má geta að andyrið var byggt síðar en inn í því miðju var gamli tjarnarbakkinn og undir sviðinu er gamall brunnur sem má rekja allt aftur til 17. aldar. Þannig að það er ljóst að hér hefur hús staðið lengi. Það þurfti mikið að gera og umfang framkvæmda talsvert. Ekkert gerðist strax og tók það sex borgarstjóra að ljúka verkefninu og sex formenn menningar og ferðamálaráðs. Svo kom kreppan inn í þetta. 1.apríl 2008 var húsinu lokað og hafist var handa."
Eftir að verkið komst af stað varð þó framkvæmdastopp í miðjum klíðum og var mikið reynt að hreyfa við þessu enda FL í lausu lofti meðan á framkvæmdum stóð. Það var ekki fyrr en í sumar eftir kosningar að það sá endanlega fyrir endan á framkvæmdunum.
"Undarlegt má virðast hve oft er mikill tregi til að að styðja við verkefni tengd listum og menningu ekki síst í því því ljósi að þau verkefni eru að skila þjóðarbúinu 81 milljarði króna í beinum tekjum og hver veit hve miklu í óbeinum. Við erum auðvitað stolt af því að leikhópur eins og Vesturport eru að fá Evrópsku leikhúsverðlaunin fyrst allra íslenskra leikhópa og það er auðvitað athygli sem þjóðin getur vel þegið og þarf því ekki að sjá á eftir því fjármagni sem í slík verkefni fara það skilar sér allt aftur og vel það. Og nú verður þetta hús sem á íslenskum mælikvarða telst ævafornt, heimili Sjálfstæðu leikhúsanna en miklu meira en það. Fjölnýting hússins gerir okkur kleyft að leigja það út fyrir leiksýningar, bíósýningar og jafnvel tónleika."
Það er ótrúlega mikið framundan í Tjarnarbíói í vetur þó ákvarðanir hafi verið teknar seint og flestir búnir að festa sér húsnæði fyrir veturinn. Við náðum að krækja í einhverjar frumsýningar. Fyrst um sinn verða nokkrar sýningar sem hafa verið sýndar annarstaðar áður. Þannig að það er um að gera fyrir fólk að fylgjast með því sem hér er að gerast nú strax í október.
"Fyrsta frumsýningin unnin innan veggja Tjarnarbíós verður í janúar með leikhópnum Soðin svið en hún er unnin með styrk frá leiklistarráði. Það verður eiginleg vígslusýning hússins. Mikið magn af tónleikum er framundan og fjöldi kvikmyndasýninga. Þrátt fyrir tilurð Bíó Paradísar vilja forráðamenn Tjarnarbíós halda því til bíósýingum til streitu og bjóða þá upp á kvikmyndir eins þöglu myndirnar og þá með hljómsveit. Það ætti sannarlega að hæfa húsnæðinu vel. En stóra breytingin hér er auðvitað að nú er kominn fjölnota salur með tilkomu svarts kassa í stað takmarkaðs sviðs og því er hægt að gera hér nánast hvað sem."
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.